Fara í efni  

Þakklát fyrir samstarfsaðila

 

Einn staður - allur pakkinn

Sævar Örn Gíslason, sölustjóri mannvirkjasviðs Landstólpa er hér í viðtali við Fréttablaðið.

Starfsemi Landstólpa samanstendur af mannvirkja-, landbúnaðar-, þjónustu- og vélasviði ásamt vélsmiðju. Síðustu ár hefur verið lögð sífellt meiri áhersla á að veita viðskiptavinum alhliða þjónustu.

Sævar Örn Gíslason, sölustjóri Mannvirkjasviðs hjá Landstólpa, hefur starfað hjá fyrirtækinu í 13 ár. Hann segir starfsemi Landstólpa upphaflega hafa verið bundna við landbúnað en vera nú orðna fjölbreyttari.

„Landstólpi er 20 ára gamalt fyrirtæki sem er í grunninn landbúnaðarfyrirtæki og var í upphafi fyrst og fremst að veita bændum ráðgjöf og þjónustu við breytingar á eldri básafjósum í legubásafjós ásamt því að útvega búnað í þau. Smátt og smátt stækkaði vöruflóran er varðar búnað í fjós og fljótlega varð þörf á því að geta útvegað yfirbygginguna líka. Árið 2004 var fyrsta stálgrindarhúsið flutt inn frá H.Hardeman í Hollandi, sem var fjós, en stálgrindarhúsin eru orðin nærri 200 í dag fyrir alls konar iðnað. Landbúnaðarhliðin hefur líka vaxið samhliða og erum við með sífellt breiðari vörulínur á þeim vettvangi á borð við tæknibúnað, heyvinnsluvélar, sáðvöru, fóður og svo framvegis.“


Landstólpi hefur frá upphafi boðið upp á reisingu á stálgrindarhúsum.

Alverk í auknum mæli

Sævar Örn segir starfsemina afar fjölbreytta. „Hvað mannvirkjasviðið varðar þá bjóðum við allt frá hönnun og sölu á stálgrindarhúsum til þess að rétta fólki lyklana að fullbúnu húsi. Strax frá upphafi var ákveðið að bjóða reisningu á húsunum með í pakkanum og var því fjárfest í viðeigandi búnaði til þess, þ.e. kranabíl, vinnulyftum og allskyns handverkfærum til þess að geta unnið hratt og örugglega ásamt því að bæta við starfsfólki,“ útskýrir hann.

„Síðastliðin ár höfum við svo í auknum mæli verið að taka að okkur alverk þar sem við sjáum um verkin frá A-Ö. Því höfum við bætt enn við okkur tækjakosti til þess að vera sem mest sjálfum okkur nóg og ber þar að nefna þrjár gröfur, fleiri kranabíla, vinnulyftur og steypumót ásamt því að ráða til okkar úrvals starfsfólk sem er lykillinn að farsælum árangri.“

Þessi þróun geri Landstólpa kleift að veita viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu. „Okkar sérstaða er að vera sölu- og innflutningsaðilar á stálgrindarhúsum, klæðningum, hurðum, gluggum og svo framvegis en vera þá einnig með vinnuliðinn sem fylgir á eftir. Það veitir viðskiptavinum okkar ákveðið öryggi og þægindaauka. Það er við eitt fyrirtæki að eiga sem er með allan pakkann og verkkaupi þarf því ekki að vera að tengja allt saman, til dæmis birgja og iðnaðarmenn ásamt mögulegum deilum um hver beri ábyrgð á hverju, heldur bara einn staður – allur pakkinn.“


Landstólpi þjónustar fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum.

Þakklát fyrir samstarfsaðila

Starfsemi Landstólpa einkennist af mikilli skilvirkni, þökk sé dýrmætri reynslu og þekkingu. „Þá er áralangt samstarf okkar við sama framleiðanda og reynslumikið starfsfólk til þess að húsin rísa svo hratt að eftir því er tekið. Menn hafa talað um að þeir hafi keyrt til vinnu fram hjá grunni að morgni og það er komið hús þegar þeir fara heim síðdegis.“

Viðskiptavinir og samstarfsaðilar Landstólpa eru af ýmsu tagi. „Bændur eru og verða alltaf okkar helstu viðskiptavinir en af þeim erum við sprottin. En vitaskuld hefur viðskiptavinahópurinn stækkað og þá einmitt helst í gegnum mannvirkjasviðið. Stórfyrirtæki í alls konar iðnaði og þjónustu hafa lagt sitt traust á okkur og mörg hver aftur og aftur eftir ánægjulegt samstarf. Þá eru verktakar víðs vegar um landið sem hafa verið að byggja upp iðnaðarhverfi í sinni heimabyggð og hafa þá keypt hjá okkur aftur og aftur hús í gegnum tíðina sem þeir reisa sjálfir. Með þessu hefur skapast ánægjulegur vinskapur og gagnkvæmt traust. Fyrir þessa aðila og samstarf erum við gríðarlega þakklát. Þá er fiskeldi í miklum blóma þessi misserin og erum við að fara að reisa þriðja og fjórða húsið fyrir þá grein á einu ári á næstu vikum og mánuðum.“


Þau eru snör en vandvirk handtökin hjá Landstólpa.

Markmið fyrirtækisins eru skýr. „Ef horft er fram á við þá er alltaf markmiðið að gera enn betur, tryggja mannauðinn og stækka hópinn með hæfu og skemmtilegu fólki. Þá viljum við gjarnan auka fjölbreytileika í okkar framboði til þess að geta brugðist enn betur við ólíkum verkefnum. En fyrst og fremst að skila góðum verkum og gera sífellt betur.“

http://www.landstolpi.is

Starfsfólk Landstólpa býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu sem skilar sér í góðum verkum.
 
Hér má nálgast hlekk á greinina:

BLAÐAGREIN