Við upphaf þriðja áratugar...

Gleðilegt nýtt ár!

Áramót eru jafnan tímamót þar sem menn leyfa sér að staldra við, velta vöngum, hugsa upphátt og líta bæði um öxl og fram á veginn. Þetta gerist gjarnan á samfélagsmiðlum með tilheyrandi orðaskiptum. Sjálfur er ég þekktari fyrir ýmislegt annað en að viðra skoðanir á þeim vettvangi og ætla ekki að breyta um kúrs í þeim efnum enda skoðanaríkur með endemum og myndi fljótlega verja drjúgum tíma í fésbókarþras ef ég hætti mér út í slíkt á annað borð!

Ég neita mér hins vegar ekki um að grípa tækifærið til að tjá mig nú þegar tvítugsafmælisárið okkar í Landstólpa er að baki og nýtt ár er hafið og þar með nýr áratugur í starfseminni. Margs er að minnast frá því við lögðum upp í þessa vegferð, fjöldinn allur af hæfileikaríku og framúrskarandi samstarfsfólki, ótal áhugaverðir og skemmtilegir viðskiptavinir, ógleymanlegir viðburðir og minnisstæðir áfangar og framkvæmdir.

Mér telst til að á þessum tveimur áratugum höfum við byggt um 70 fjós í sveitum og yfir 100 hús til annarra nota í þéttbýli og dreifbýli víðs vegar um landið. Af þessu öllu er ég ákaflega stoltur.

Heiðarleiki í viðskiptum

Við hjá Landstólpa höfum frá upphafi kappkostað að stunda heiðarleg viðskipti og ég er algerlega sannfærður um við getum þakkað þeirri stefnuyfirlýsingu velgengni fyrirtækisins. Gott og farsælt gengi í rekstri byggist reyndar á samspili margra þátta og fyrst ber auðvitað að nefna frábært starfsfólk með langan starfsaldur og mikla reynslu í farteskinu og trúverðugleika, heiðarleika og traust í fyrirrúmi í starfseminni.

Í mínum huga eru farsæl viðskipti afar einfalt mál í sjálfu sér. Þau felast í því að kaupandi og seljandi séu sæmilega sáttir með niðurstöðuna en hvorugur ofsaglaður! Gagnkvæmt traust myndast og þar með skapast forsendur til meiri samskipta og viðskipta síðar.

Vissulega er „lægsta verð“ alltaf freistandi en undirverðlagning eða “einskiptisviðskipti“ teljast ekki heilbrigðir viðskiptahættir. Allir verða að lifa af sínum rekstri.  Við höfum tamið okkur heilbrigða viðskiptahætti og að stilla verðlagningu í hóf en reynt að umbuna þeim sem mesta tryggð sýna okkur og eiga við okkur mikil eða tíð viðskipti. Það er eðlilegur hlutur. Ég hef hins vegar aldrei getað skilið þegar seljendur vöru eða þjónustu geta allt í einu boðið helmingsafslátt eins og ekkert hafi í skorist. Í slíkum tilvikum hlýtur einhvers staðar að vera rangt gefið í ferlinu og þá sennilega á kostnað þeirra sem tryggastir eru í viðskiptum við viðkomandi.

 „Sjötta barnið“

Tilfinningin er sú að ég sjálfur og fjölskylda mín standi á tímamótum en þá allra helst „sjötta barnið“, það er að segja fyrirtækið Landstólpi sem hefur reyndar reynt meira á okkur foreldrana að ala upp en öll hin börnin til samans!

Rekstur fyrirtækis á nefnilega margt skylt með barnauppeldi þegar að er gáð. Að barni eða fyrirtæki þarf að hlúa, veita umhyggju en aðhald um leið, greina mun á réttu og röngu, komast af rangri leið á rétta ef þörf krefur og leiðbeina um að takast á við breytilegar aðstæður og læra að sigla í mótbyr ekki síður en í meðbyr. Það er hreint ekki alltaf meðvindur í uppeldi og stundum gefur hressilega á bátinn. Þannig er það líka í fyrirtækjarekstri.

Ég er afskaplega stoltur af því að hafa fengið þann kaleik í hendur fyrir tveimur áratugum að stýra Landstólpa og hef haft að leiðarljósi frá upphafi að styrkja íslenskan landbúnað í samkeppni erlendis frá. Það má nánast kallast þráhyggja. Ég er sannfærður um að Ísland sé land tækifæra. Hreinn og ómengaður landbúnaðir er nefnilega gulls í gildi. Við höfum hins vegar margt að sækja og margt að læra í grannlöndum okkar og það gerum við með því að fylgjast með viðhorfum, tækniþróun og ýmsum breytingum í landbúnaði og tilheyrandi þjónustustarfsemi erlendis og tileinka okkur það sem gagnast best hér heima.

Samstarf fjölskyldufyrirtækja

Landstólpi er auðvitað fyrir löngu orðinn fullorðinn í rekstrarlegum skilningi fyrirtækis.  Hann er í grunninn fjölskyldufyrirtæki og gaman að geta þess að ótrúlega mörg erlend fyrirtæki, stór og smá sem við höfum stofnað til samstarfs við, eru líka gamalgróin fjölskyldufyrirtæki að stofni til. Við þurfum því ekki að tala lengi við eigendur þessara fyrirtækja til að finna samhljóm sem svo skapar traust og einlægan áhuga fyrir samstarfi.

 Við Berglind eigum þeirri gæfu að fagna að börn okkar og tengdabörn starfa með okkur í fyrirtækinu og höfuðstöðvar þess í Gunnbjarnarholti eru fjarri þeim byggðakjörnum sem mestallt atvinnulíf virðist sogast til. Af því erum við stolt.

Nýtt lógó á nýju ári

Núna í byrjun árs mörkum við tímamót með því að kynna nýtt myndmerki eða lógó Landstólpa. Það er einfalt og stílhreint að uppbyggingu og framsetningu en þeir sem vilja kafa dýpra í myndmálið geta lesið úr merkinu meiningu okkar og það sem við stöndum fyrir. Hér má sjá tilvísun í sól, vatn og grænar grundir, sömuleiðis í byggstráið og ef betur er að gáð er hægt að ráða í myndgátuna að þarna sé líka þaklaust iðnaðarhúsnæði með stóru dyraopi!

Þá vil ég geta þess að núna um áramótin tók gildi nýtt skipurit í Landstólpa með deildaskiptingu sem hæfir fjölbreyttum rekstri fyrirtækisins. Starfseminni verður skipt upp í skýrari þætti og aukin ábyrgð lögð á lykilstjórnendur með hvatningu um að fóstra blómstrandi hugmyndir og frjóa framtíðarsýn um hvernig Landstólpi skuli þróast áfram. 

Ég þakka viðskiptavinum samfylgdina og traustið og vona innilega að samskiptin við þá í ár verði persónulegri en gerist í gegnum síma og tölvupósta á tímum kórónuveirunnar!

Megum við öll hefja ferðalag inn í árið 2021 full eftirvæntingar vegna nýrra tækifæra og áskorana í heimi þar sem COVID 19 veiran játar sig vonandi sigraða fyrr en síðar.

 Þess óskar
Arnar Bjarni Eiríksson,
forstjóri Landstólpa.