Nýjung á Íslandi

Nýjung á Íslandi!

Enn á ný erum við stolt af því að kynna nýja tækni fyrir íslenskan landbúnað.

Við erum jafnvel enn stoltari yfir því að geta nú boðið upp á tækni sem dregur verulega úr kolefnisspori landbúnaðar og getur minnkað plastnotkun á meðalbúi um allt að 1.200 kg á ári.

Eftir þriggja ára þétt samstarf og samvinnu við hollenska fyrirtækið Easy Silage erum við nú að uppskera.

Landstólpi hefur sett upp fyrsta sjálfvirka yfirbreiðslubúnaðinn fyrir votheysstæður- ekki eingöngu á Íslandi heldur fyrsta búnaðinn sem settur er upp utan Hollands!

Ávinningurinn með þessari nýju tækni er ekki eingöngu umhverfislegur heldur eykur bæði gæði fóðursins, lengir geymslutíma og dregur úr vinnu við umhirðu stæðunnar.

Þannig getur einn maður gengið frá stæðunni á u.þ.b. 1-1 ½ klst. Hægt er að heyja í hana margsinnis yfir sumarið en hollendingar kalla þetta „lasagne-style“. Þetta tryggir einsleitni fóðursins allan gjafatímann.

Easy Silage- sjálfvirki yfirbreiðslubúnaðurinn fellur vel að hugmyndafræði Landstólpa sem leggur metnað sinn í að bjóða ætíð upp á bestu mögulegu tækni til handa íslenskum bændum.  Við erum þess fullviss að íslenskur landbúnaður taki þessari tækninýjung fagnandi og á þann hátt sem hún á skilið – fyrir framtíðina.